“Eftir smá útgáfupásu, sem ég hef nýtt vel til að skrifa nýja plötu mun fyrsti singúllinn af nýrri plötu koma út á mánudaginn. Þetta lag heitir Islander og markar upphafið af nýrri plötuútgáfu og lítilli markaðsherferð fyrir Airwaves tónleikana mína í nóvember, þar sem ég mun frumflytja efni af þessari glænýju plötu” segir Ingibjörg Friðriksdóttir tónlistarkona, laga- og textahöfundur.

Inki, sem er listamannsnafnið hennar, byrjar útgáfu af nýrri plötu Locally Grown með laginu Islander (Eyjaskeggi) , þar sem útþrá og óslítandi tengsl við Ísland mætast. Á plötunni dregur Inki fram sögur úr eigin nærumhverfi og gerir hversdagsleg augnablik stór – allt frá spákonu sem ráðleggur að hætta að velta sér upp úr framtíðinni, til óvæntra samtala við hverfisfyllibittu.
Grípandi laglína leiðir hlustandan í gegnum tilraunakenndan hljóðheim, og strengjaleikur Þórdísar Gerðar Jónsdóttur, Karls James Pestka og Sigrúnar Harðardóttur lita lagið hlýjum og hugljúfum blæ.